Færsluflokkur: Bloggar
8.4.2008 | 18:16
Nýtt tungl
Ég náði að sofna undir morgun en lét mig ekki og dreif mig af stað í fyrirhugaðan göngutúr á Hellisheiði.
Þegar ég opna útidyrahurðina, blasir við mér hlussu stór æla. Eftir að ég var búin að klofa yfir æluna og fara með dót í bílinn fór ég bálreið upp og hringdi bjöllunni á íbúð 27, þar var engin með rænu til að koma til dyra. Ég ákvað að halda mínu striki og ganga í málið í bakaleiðinni.
Keypti mér Útivistarbókina í N1, bók um útivistarsvæði og gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur, var svo rokin af stað upp á Hellisheiði.
Þar var greinilega engan að sjá sem vildi slást í för með mér svo ég tók strikið uppúr ellefu að Hengilssvæðinu. Ég er með stafina og ætla í Stafgöngu. Áður en ég yfirgaf bílinn setti ég á mig mannbroddana sem Guðmunda Elíasdóttir gaf mér fyrr í vetur, þeir eru úr síðari heimstyrjöldinni og hafa alveg bjargað mér. Það er satt Mumma mín, það gæti verið hálft á Heiðinni og ekki nenni ég að slasast.
Nú tek ég eftir á kompás stafanna að áttin sem ég geng í er til SA en ekki N einsog ég hafði áður sagst ætla að gera. Það var gott að ég setti á mig mannbroddana, því mér fannst gott að ganga í frystum snjónum. Það var undur fallegt veður í þessu nýja tungli, kalt -1 stigs frost, logn og mér var ekki kalt.
Ég fór næstum að Reykjarfjalli, kalla fjallið það, því það rýkur úr því á mörgum stöðum. Töfrandi magnað fjall. Krummarnir krunkandi margir í hópi, afar dularfullir í hátterni. Það var gott að ganga eftir ísbreiðunni sem stirndi á í sólskininu og útsýnið allt var magnþrungið.
Allt í einu birtast mér margir sportmenn á fínum fjórhjólum. Varð hugsað til seinustu ferðar sem ég fór um Hellisheiði, í mun verra veðri fyrir níu árum. Þá birtust mér allt í einu fullt af hundum sem drógu sleða hundaþjálfarans. Það var óvænt og fögur sjón út úr bylnum. Maður getur aldrei verið viss hvaða jólasvein maður hittir á fjöllum.
Eftir rúmlega klukkutíma göngu fékk ég verk í hægri stóru tá. Minnug þess að Inda systir missti næstum nögl í þrautargöngunni á Reykjarnesi, ákvað ég að ofgera mér ekki og fór ekki lengra. Ég var þá búin að vera rúma tvo tíma á göngu fram og til baka, þegar ég tók eftir að ég hafði glatað öðrum mannbroddinum. Ég gekk til baka og leitaði í skóförunum, sem voru með skýra mynd. Skóförin leiddu mig áfram þangað til ég fann mannbroddinn liggjandi á snæþeli Heiðarinnar.
Það hafði hlýnað töluvert í veðri og nú fann ég roðann koma fram í kinnarnar þetta er toppurinn, hugsaði ég, alger dásemd, búin að taka á því og á heimleið.
Eftir brauð innkaup í Nóatúni og þrjú þúsund króna arðrán fyrir annað smáræði í bakaleiðinni, kom ég heim í æluna.
Formaður húsfélagsins stóð fyrir utan hjá sér og ruggaði barna vagninum, sammála því að eitthvað þyrfti að gera í málinu. Hún vildi samt halda sínum vinsældum og ekki koma á neinni styggð við strákinn, en bíða með fund í húsfélaginu og ræða þetta þegar pabbi stráksins kæmi heim af sjónum.
Ég kom dótinu fyrir og hoppaði svo yfir æluna og upp til stráksa og lá þar á bjöllunni þangað til hann opnaði. Þetta er bara rauðhærður krakki, hugsaði ég, svona líka glerþunnur.
Ég: - Það eru allir í húsinu uppgefnir á partýhöldum, látum og sóðaskap hérna, sjáðu hérna æluna fyrir utan dyrnar hjá mér. Hann sér æluna og annað sem ég benti honum á, glerbrot, bjórdollur, sígarettu og vindlastubba, m.m.
Stráksi: - Já ég sé.
Ég: - Þetta gengur ekki svona, þú verður nú að taka háþrýstidæluna úr geymslunni, láta hendur standa fram úr ermum og þrífa upp þessa ógeðslegu ælu og allt þetta rusl.
Stráksi:- Já, geri það og horfir undrandi niður á æluna.
Ég fór aftur niður til mín og vonaði að hann drifi í þessu því ég var á leiðinni á Kjarvalsstaði.
Eftir tvo tíma var hann búin að þvo upp æluna, þá var búið að loka á Kjarvalsstöðum og útilokað að ég næði að sjá sýninguna, Klessulistarhreiðrið í Listasafni ASÍ við Freyjugötu 41.
Á morgun er annar dagur, vona að hann verði skemmtilegur í góða veðrinu sem spáð er. Þá hef ég hugsað mér að fara í Menningartúr.
Sunnudagurinn var sannkallaður Menningardagur og ég gerði allt sem ég ætlaði mér á laugardaginn og kíkti á vinkonu að auki.
kveðja
eva
Bloggar | Breytt 24.4.2008 kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
2.4.2008 | 19:58
Fann mig í páskagöngunni á grindavík.is
Hér má sjá að ég rekst ekkert sérstaklega vel í hópi. Það situr til dæmis engin nema ég, meðan fararstjórinn heldur tölu um umhverfið. Þarna má sjá okkur systurnar og ennþá var klukkutími eftir af þessari þrautargöngu.
Jæja elskurnar,
þið sem nennið að rísa úr rekkju í fyrramálið eruð velkomin að slást í för.
Ég má ekki láta deigan síga og verð mætt og farin af stað kl. 11:00 í fyrramálið 5. apríl. Ferðinni er heitið til norðurs í 'rannsóknarleiðangur', frá LITLU KAFFISTOFUNNI, í klukkutíma eða svo.
Ps. Ég er stundvís!
Sjáumst!
Komum út að ganga!
Bloggar | Breytt 24.4.2008 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.3.2008 | 22:12
Illahraun og Baðsvellir
Eins og tilkynnt var í Morgunblaðinu í fyrri viku, var efnt til gönguferðar með leiðsögn Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar á annan í páskum. Þetta rak systir mín augun í og bauð mér í göngutúr, sem ég þáði.
Við vorum komnar á tilsettum tíma að Bláa Lóninu en þaðan átti að leggja upp. Uppúr klukkan 13:00 lagði rúmlega áttatíu manna gönguhópur af stað í mikið ferðalag í frekar slæmu skyggni. Gengið var um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól meðfram Skipstíg, sem er forn þjóðleið. Haldið var austur með suðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli þar sem kíkt var á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga.
Þegar hingað var komið sögu var ég búin að detta einu sinni. Það var ekki nokkur leið að líta upp úr hellu eða apalhrauninu, þá var voðinn vís. Ég var að reyna að taka myndir en í þessari ferð tókst það ekki betur en svo að ég datt. Stoppin voru fá og stutt og seinasti maður fékk ekkert stopp. Mér fannst ég vera í þjálfun fyrir hersveit. Leiðin var sem sagt löng, ströng, mörg einstigi og illfær á köflum.Við áttum enn eftir klukkutíma, áður en gengið var yfir að svæði Hitaveitu Suðurnesja hinu litskrúðuga lónsvæði að lækningalindinni.
Dauðþreyttar settumst við systur inn í bílinn, fjórum tímum síðar og fengum okkur samlokur. Það var afrek að komast loksins í Bláa Lónið, eftir um tíu km göngutúr.
Sannkölluð þrautarganga að baki og ég er búin að taka út harðsperrurnar sl.fjóra daga. Lífið er samt dásamlegt og það eitt að vita að ég komst þessa ófæru, að mestu leiti óstudd, gefur mér byr undir báða vængi.
Maður er alltaf að safna minningum í sarpinn og eitthvað kemur út úr öllu. Það er mín reynsla. Mig hefur t.d. dreymt mjög sérstaka drauma síðan ég fór í þessa gönguferð. En ég held ég bíði með að rjúka í göngutúr með systur minni sem er í fjallaformi, svona fyrsta ganginn.
Bloggar | Breytt 15.4.2008 kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.3.2008 | 17:18
Föstudagurinn langi
Sólin skein á föstudaginn langa. Það var engin annar vegur í mínum huga en til Bláfjalla. Þar reyndi ég að finna mér gott pláss nálægt sléttu, svo ég gæti æft mig á gönguskíðunum. Lagði mínum rósrauða VW og gekk yfir götuna. Það var alveg ljóst að ég gat hvergi falið mig, samtal mitt við almættið um að verða ósýnileg í gerningnum var útilokað. Loksins tókst mér að renna ekki til og smella mér í bæði skíðin.
Myndavélin hékk um hálsinn, bakpokinn með heita súkkulaðinu og hrökkbrauðinu komið í hann, allt klárt. Heyrnartólin komin í eyrun, útvarpið stillt á rás 2 og þar hljómaði sjálfur Megas með píslargöngu Krists í tónverki eftir Passísálmum Hallgríms Péturssonar. Fullkomið, hugsaði ég og renndi mér skref fyrir skref titrandi og skjálfandi á beinunum.
Helga vinkona hafði sagt mér að beygja mig í hnjánum og setja göngustafina langt aftur fyrir mig og bruna niður brekkurnar, það væri ekkert mál að detta út til hliðar. Málið er að ég get ekki staðið upp án hjálpar ef ég dett, ligg bara afvelta þangað til mér er bjargað, alger klaufi, þess vegna vil ég ekki detta. Hún kenndi mér líka að ganga upp brekku skref fyrir skref með skíðin vísandi í sömu átt og eins útglennt skíði í V og í A til að stoppa. Hún sneri sér við einsog ballerína á punktinum og renndi sér niður brekkuna, rosalega flink en ég var ekki að ná þessu þann daginn.
Þetta var fjórða tilraun mín á gönguskíðum og nú ætlaði ég að bæta mig, en sá þá vélknúin fis á lofti sem tók alla mína athygli þannig að ég gleymdi mér í ljósmyndun. Þarna uppi vildi ég heldur vera. Fegurðin og umhverfið var þvílíkt á þessum degi að ég var bergnumin. Mikið vildi ég frekar sitja við hliðina á þessum, þarna uppi, hugsaði ég.
Eftir tveggja tíma útiveru, vonlausa gönguskíðaæfingu tók ég af mér skíðin og gekk til baka. Horfði til fjalla og hugsaði til systur minnar á Spáni. Sat í skottinu á bílnum og fékk mér heitt súkkulaði og hrökkbrauð. Koma þá til mín þrír gullfallegir ungir menn, sem komu til Íslands yfir Páskana frá Spáni en gátu ekki fengið gönguskíði leigð á staðnum.
Þið getið fengið mín, sagði ég. Þeir brostu og afþökkuðu gott boð. Þá bauð ég þeim heitt súkkulaði úr mínum bikar, sem þeir þáðu loks og þótti gott. Ég gat hringt í Bláa Lónið og athugað fyrir þá hvort þar væri opið á þessum helga degi", sem ég efaðist um. En mér til undrunar sagði stúlkan já, það er opið til klukkan átta í kvöld. Þá vísaði ég þeim fjallasýnina til Hafnarfjarðar svo þeir fengju eitthvað eftirminnilegt frá Íslandi í minninguna. Þeir voru himinlifandi og afar þakklátir. Og ég líka.
Dagurinn var hálfnaður og ég keyrði í átt að Rauðavatni, lagði bílnum og dreif mig í Stafgöngu. Þarna eru hestastígar og göngustígar en stundum liggja þeir saman og í leysingum verður þetta hið mesta svað. Ég þekki ekki leiðina hef aldrei komið hérna megin að vatninu áður og verð forvitin í góða veðrinu, finn lyktina af gróðrinum og hestaskítnum, finnst allt gott sem bendir á vor í lofti. Ég hitti hjón með dóttur og hund, hundurinn kom hlaupandi til mín en ég fékk ekki að klappa honum. Nokkrir hestamenn, karlar og konur á hestbaki og ég var ein í Stafgöngu og ætlast ekki til neins. Komin upp á heiði út úr skóginum og sé vítt til allra átta, stórkostlegt útsýni. Ég varð að stoppa aðeins og teygja smá svo ég gæti haldið áfram. Vatnið var ekki meðferðis, hafði gleymt því í bílnum og vissi ekki hvað væri framundan. Gekk ákveðin áfram og skildi ekkert í þessum krafti sem kominn er í mig. Er það reykleysið í tæpa tvo mánuði, eru það vöðvarnir sem eru að byggjast upp, á ég Reykjalundi allt að þakka, það er trúlegast. Svona tala ég við sjálfa mig og geri mér grein fyrir að ég ýti mér sjálfri áfram, þó ég reyni að taka leiðsögn. Það gerir þetta engin fyrir mann, það er einhver fullnæging í þessari vitneskju.
Ég hlustaði áfram á útvarpið, rás 2 og nú er ég mætt á yndislega tónleika í minningu Bergþóru Árnadóttur, trúbadors og baráttukonu.
Loksins finn ég fyrir þreytu og þorsta eftir klukkutíma röska göngu. Lít í kringum mig og sá listaverk í fjarska. Sjö tröppur upp í hásætið. Ég trúi varla mínum eigin augum. Verkið var hinumegin við Rauðavatn fyrir nokkrum árum, fyrir neðan Moggahúsið. Ég þurfti aðeins að átta mig á þessu. Jú, þetta skemmtilega verk er eftir Erlu Þórarinsdóttur. Ég þekki þetta verk en nú ætla ég upp á skúlptúrinn, allar tröppurnar sjö og setjast í hásætið.
Í hásætinu sat ég dágóða stund, hugleiddi, auðmjúk og þakklát forsjóninni, naut útsýnisins sem aldrei fyrr.
Til hvers er myndlist ef hún er ekki til þess að njóta, ekki til neins, hugsaði ég. Takk Erla.
Lífið er dásamlegt.
Bloggar | Breytt 15.4.2008 kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.3.2008 | 15:51
Út að ganga....
Eftir fimm vikna viðveru og heilsueflingu á Reykjalundi er ég eldhress. Árangurinn er satt að segja ótrúlegur. Ég bætti mig um 40% í þoli á þessum tíma, sem er frábært. Sannarlega var ég komin til að bæta mig og styrkja, eftir langvarandi veikindi en þetta kom mér á óvart.
Starfsfólkið er fullkomlega faglegt á öllum sviðum og óhætt að treysta skóluninni og aðhaldinu þar á bæ. Uppbyggingin lætur ekki á sér standa ef farið er eftir því sem kennt er. Reykjalundur er góður skóli.
Auðvitað verður maður að fórna ýmsu í átakinu en það er allt þess virði þegar upp er staðið.
- Einmitt þegar upp er staðið frá tölvunni er gott að muna eftir að ganga mikið, nokkra kílómetra ef mögulegt er og helst frekar hratt, fá blóðið á hreyfingu, borða hollan mat og hætta að reykja. Hvíla sig reglulega og fá hugarró. Sleppa tölvunni ef hún er komin út í ómissandi fíkn einsog sígaretturnar. Það er ekkert auðvelt.
Ég hætti að reykja nóttina áður en ég lagðist inn á Hjartadeildina og hef nú verið reyklaus á sjöttu viku. Það gengur einn dag í einu. Tölvan er líka vinur, hún gefur tímabundinn félagsskap en enga heilsueflingu. Ég var að koðna niður og neðar andlega og líkamlega, enda sat ég og las út í eitt, reykjandi án þess að borða rétt eða hreyfa mig. Ég var alltaf að bíða eftir kallinu og svo var komið að mér.
Það er langur biðlisti að Reykjalundi en læknar meta aðstæður fólks hverju sinni og sjá um að sækja um og skrá viðkomandi.
Vongóð um framhaldið í lífinu, þakklát í hjarta mínu fyrir yndislega umönnun og heilsueflingu að Reykjalundi, góða herbergisfélaga, frábæra sjúklinga og skemmtilegt fólk.
Takk fyrir mig, kveðja, eva
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.1.2008 | 02:57
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi
Ég hringdi í Geira góða sem alltaf bjargar mér. Það var þó brjálað að gera í vinnunni og mikið stress fyrir áramótin. Hann segir mér að hringja í fyrramálið sem ég og geri. Hann segist þurfa að athuga þetta og muni hringja til mín. Ég klæði mig í vetrargallann á meðan. Rétt komin í fötin þá er hringt og ungur maður segir að það sé út af rafgeyminum. Já, einmitt. Hvernig er bílinn þinn á litinn, spyr hann og ég segi honum það. Já, ég sé hann, ég er fyrir utan hjá þér. Hvað segirðu , ertu kominn? ég kem út.
Hvaðan kemur þú, kannaðist ekki við hann af verkstæðinu hjá Geira góða. Ég kem frá Pólar rafgeymum, sagði ungi maðurinn og gekk berhentur strax til verka um leið og ég var búin að opna húddið. Ég stend úti í frostinu og fylgist með af aðdáun því ungi maðurinn var bæði handlaginn og velvirkur.
Á meðan hann vann í þessu, sagði ég honum sögu af vandvirkum afa mínum Jóni Bjarna Guðmundssyni, smiði f.1870-1966, sem byggði meira og minna Bíldudal og skúturnar fyrir Pétur Thorsteinsson. Og hvernig hann gerði við alla skapaða hluti, klukkur og síðar rafmagn, brauðristar og vöfflujárn svo eitthvað sé nefnt. Hann var alltaf að smíða eitthvað eða tálga. Hann bjó til sprellikarla og furðu dýr. Hunda, hesta, kýr, kálfa, kindur og lömb, pallbíla, dúkkuhús, vagna, magasleða og skíðasleða fyrir börnin. Jón afi tálgaði taflmenn og málaði þá rauða og hvíta og raðaði þeim upp á rautt og hvítt taflborð, sem hann smíðaði og málaði. Svona gekk það fram í andlátið. Hann var sannkallaður þúsundþjalasmiður.
Þá segir ungi maðurinn: Ég er líka ættaður frá Bíldudal. Nú jæja! Hverra manna ert þú, spurði ég einsog af draumi. Þá segir hann; ég heiti Agnar og afi minn heitir Agnar Árnason og er kaupmaðurinn á horninu, hann rekur Rangá inn í Kleppsholti, Skipasundi 56. Þú segir ekki!Veistu að við afi þinn erum systkinabörn, langamma þín og pabbi minn voru systkini. Hvað segirðu, segir Agnar? Svalt! Himinlifandi faðmaði ég nýjan frænda og þakkaði honum fyrir hjálpina, bað fyrir bestu kveðjur til afa og fólksins alls og óskaði honum gæfu og góðs gengis í allri framtíð.
Síðan keyrði ég niður í Póla í Skipholtinu og borgaði minn 11.000 kr. reikning og þakkaði sérdeilis fína þjónustu og sagði þeim í leiðinni frá bjargvætti mínum Geira góða, í Bílaskoðun og Stilling í Hátúninu. Hann ætti skilið fálkaorðuna fyrir elskulegheitin, hann væri drengur góður og kynni sitt fag. Hann sendi mér bæði engil og nýjan frænda í dag.
Bloggar | Breytt 4.1.2008 kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2007 | 00:46
NÚ ÁRIÐ ER LIÐIÐ
Margs er að minnast og mikið að þakka.
Það sem stendur uppúr hjá mér 2007 er að ég læknaðist, ferðaðist og byrja að blogga.
Ég tók saman árið í myndum og læt þær tala.
Takk fyrir mig og GLEÐILEGT NÝTT ÁR 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.12.2007 | 01:32
Rowan Atkinson
Amazing Jesus.... í veisluna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2007 | 02:22
Julie Andrews til Heidi og Matta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.12.2007 | 03:53
Bobby McFerrin improvisation with Richard Bona
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)