Færsluflokkur: Bloggar

Heims um ból


JANIS

Ég sá fimm tónleika með Janis Joplin ´68-´69 og gjörsamlega féll fyrir henni og fl.

HeartHeartHeartHeartHeart

Janis var fædd: 19. janúar 1943, í Port Arthur, Texas, dáin: á Gistihúsi í Los Angeles, 4. október 1970 aðeins 27 ára gömul, dauðaorsök heróin OD.

Blessuð sé minning hennar. 

Tónleikarnir 

8. mars 1968 - Big Brother with Tim Buckley and Albert King
Fillmore East, New York City

7. april, 1968 - Big Brother with Jimi Hendrix, Buddy Guy, Joni Mitchell, Richie Havens, Paul Butterfield, and Elvin Bishop
Wake for Martin Luther King, Jr.
Generation, New York City
 

2.-3. ágúst, 1968 - Big Brother with the Staple Singers and Ten Years After
Fillmore East, New York City
 

11.-12. febrúar, 1969 - Kozmic Blues
Fillmore East, New York
 16. ágúst, 1969 - Kozmic Blues; Canned Heat, Creedence Clearwater Revival, the Grateful Dead, Keef Hartley, Jefferson Airplane, Mountain, Quill, Santana, The Who.


Í minningu Bill Evans

Ég er þakklát fyrir að hafa hitt Bill Evans í Boston 79 ´

 


Daman er tilbúin!

 Jólakort by eva ben 2007 copy copy

Kæru vinir nær og fjær, þakka allan stuðningin og skrifin á árinu sem er að líða

og óska ykkur öllum GLEÐILEGRA JÓLA , gæfu og gengis um ókomna tíð.

Lifið heil í ást, friði og kærleika. Eva

 


Dagur á lífi...

 Ég gleymi ekki konunni sem sat við borð eitt á kaffihúsi og brosti breitt til ungu herranna sem gengu framhjá og bauð góðan daginn. Hún drakk bjór og keðjureykti. Hún var eirðarlaus og virtist ekki geta komið sér vel fyrir í sætinu, stóllinn var valtur og borðið líka. Hún missti sígaretturnar á stéttina, horfði í kringum sig og vonaði að engin tæki eftir þegar hún teygði sig eftir pakkanum. Hún kveikti sér í sígarettu og lagði báða olnbogana á borðið, við það sporðreisist borðið og bjórinn helltist úr glasinu og glasið rúllaði niður á stéttina og brotnaði. Konan fékk nóg, stóð upp og fór.

 Þarna hafði ég kosið að drekka morgunkaffið úti í sólskininu og horfa á mannlífið úr því ég átti þess kost á meðan ég var að vakna. Af hverju varð mér svona starsýnt á þessa konu hugsaði ég. Þetta gerðist allt svo hratt. Ég tók eftir hvað hún var falleg með langa fingur og blóðrautt naglalakk, ljóst uppsett hár, fallegt bros, snyrtileg, í ljósri mussu og hvítum leggings, vel vaxin, vel klædd, berfætt í láhæluðum gullskóm, sem ég sá þegar hún skaust frá borðinu með hraði fyrir hornið. Hún kaus að sitja í skugganum. Hún brosti aldrei til mín, hún sá mig ekki.

 Ég æfði mig að ganga upp og niður tröppur í gamla bænum. Flísalagðir þröngir stígarnir með öllu sínu blómaskrúði og fuglasöngurinn heltóku mig þess á milli. Litlu búðirnar með smekklega útstilltum varningi og konurnar sem þar unnu ýmist að koma fataslám fyrir utandyra, sópa eða að pússa gluggana brostu til mín og buðu mér góðan dag. Það var ekkert nema hamingja í hjarta mínu, ég var frjáls, þakklát fyrir að geta gengið aftur, verið úti í 27 stiga hita sem er alveg mátulegt og engar pöddur eða flugur að angra mig.

 Það var gott að koma heim til systur minnar. Hún hugsaði vel um að ég fengi gott að borða á hverju kvöldi og stundum eldaði ég, þá gat hún hvílt sig á meðan. Í kvöld ætluðum við að slappa af heima eftir matinn og hlusta á jazz. Ég hafði ekki hlustað á Erroll Garner í áraraðir og hlakkaði til og þótti mikið til koma að systir mín ætti geisladisk með þessum gamla snillingi slaghörpunnar.

 Erroll Garner samdi uppáhaldslag systur minnar Misty 1954. Hann var ómenntaður stríðnispúki eða álfur sögðu vinir hans, en hann var alltaf hann sjálfur. Hann byrjaði þriggja ára að spila og hélt því áfram þar til yfir lauk 1977, þá aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall. Hann var lágvaxinn, feiminn og skemmtilegur. Hann hafði gríðarlegan drifkraft. Þá var hann jafnvígur á báðar hendur hvort sem hann skrifaði, spilaði tennis eða lék á píanóið. Umdeildur af elítunni, óumdeilt músíkalskt séní að áliti almennings. Goðsögn í lifanda lífi, sagði fólkið.

  

 Erroll Garner, tók hvorki sjálfan sig né listformið of hátíðlega. Hann sagði: „Það eru áttatíu og átta nótur á hljómborðinu og þær eru þar allar til að spila á, ekki til að horfa á“. Og hann heldur áfram, „ég fæ innblástur úr öllum áttum, sterkum litum, sjávarföllum, roki og rigningu eða eldingu, einhverju svölu. Að spila er einsog lífið sjálft, annað hvort hefur þú tilfinninguna eða þú hefur hana ekki.

    

 Þetta var ólýsanleg skemmtun og unaðsleg tilfinning að hlusta á meistarann.

 Við ákváðum að fara snemma í rúmið þetta kvöld því morgundagurinn var þétt bókaður í hátíðahöld vegna afmælis okkar systra. Ég bauð góða nótt um tíu leytið og gekk upp í turninn minn. Mikið er ég heppin hugsaði ég, á þessum tíma í fyrra var ég að hrapa í hengirúmi á Íslandi, nú er ég í turnherbergi á Marbella. Hver hefði spáð því?

 Ég gat ekki sofnað, það var allt svo undarlega hljótt að mér stóð ekki á sama. Ég fór frammúr og kíkti út um gluggann, það var mjög dimmt úti. Allt í einu heyrði ég þrumur í fjarska og tími nú ekki að sofa. Þrumurnar færðust nær og nær og nú sá ég eldingu. Ég mundi að í Arizona kom eldingin fyrst og svo kom þruman. Ég kveikti á ljóstýru, stillti myndavélina á hljóðupptöku með hraði og slökkti ljósið, ég ætlaði ekki að láta góða þrumu fram hjá mér fara. Allt klárt í myrkrinu og óveðrið færðist nær og nær. Eldingarnar voru svo rosalega bjartar að ég fékk ofbirtu í augun og í kjölfarið kom þessi krassandi þögn áður en þruman brast með þvílíkum sprengjukrafti að ég hélt að þrjúhundruð og fimmtíu ára turninn minn myndi leggjast saman. Nú var gaman, eitthvað í gangi hugsaði ég.

 Systir mín gat heldur ekki sofið og var nú komin upp til mín til að njóta með mér. Við horfðum á rigninguna skella á húsinu með ofsahraða og drekarnir á húsveggnum voru byrjaðir að spúa vatni í löngum bunum. Hún hafði aldrei séð svona mikla rigningu og taldi vissara að klifra upp á turnþak og hreinsa þakrennurnar þar sem vatn var farið að leka niður brattan stigann frá háaloftinu. Ég fór á eftir henni skíthrædd um hana hálfnakta uppá þaki í brjáluðu veðri. Henni tókst að bjarga útgönguleið fyrir vatnið, þakrennan var full af gömlum laufblöðum. Okkur létti og spennan datt niður um stund svo við buðum góða nótt aftur um hálf þrjú leytið. Ég lá lengi í rúminu þakklát fyrir viðburði dagsins, það er sko engin lognmolla hér, hugsaði ég og sofnaði loks alsæl undir morgun.

 Vaknaði aftur klukkan átta fimmtíu og fimm við þvílíkan hávaða að mér datt helst í hug að stórskotahríð væri að herja á borgina. Hentist frammúr og sé þá hvar risastórt haglél skar flugnanetið í glugganum, ég rétt slapp, tók mér stæði til hliðar við gluggann, hjartað barðist hratt í brjósti mér, ég steinþagði og sá haglið skjótast inn á gólf og upp í rúm á ofsahraða. Nú stóð mér ekki lengur á sama og í því kallar systir mín á mig hátt og skelfilega einsog hún væri ekki viss um hvort ég væri á lífi. Og jú, guð sé lof, við vorum báðar á lífi. Við hlustuðum orðlausar saman í undrun á þessa ótrúlegu ásláttarsinfóníu risahaglélsins þar sem það dundi á leirþökum, glerjum, húsum, bílum, trjám og öllu því sem fyrir varð í um tíu mínútur.

 Aldrei hefur annað eins gerst í manna minnum á Marbella, sögðu þeir í útvarpinu. Engin manneskja slasaðist og nærliggjandi bæir sluppu alveg við haglélið. Gríðarlegt tjón varð á bílum og mannvirkjum. Himininn opnaðist beint fyrir ofan okkur og hellti úr sér öllum þessum klaka. Mörg höglin voru stærri en golfkúlur og sum voru líkari fljúgandi diskum.

 Hvað veldur, hugsaði ég alveg dolfallin.

 Glaðleg kona hringdi inn á útvarpsstöðina og sagðist þakklát fyrir að þurfa ekki að sækja ís í partíið í kvöld, sundlaugin væri full af ís og allir velkomnir.


Green Card Lottery

 Ég var að leita upplýsinga á netinu um hvernig ég gæti fengið lagið Misty eftir Erroll Garner, birt inn í sögu sem ég hef verið skrifa. Ég var stödd á heimasíðu Artist Direct+ þegar blikkandi skjal frá Green Card Lotto birtist á skjánum. Þar stendur að ég sé vinningshafi, að mér sé frjálst að búa og vinna í Ameríku, að umsóknin sé fyrir framan mig og ég þurfi bara að fylla út nokkrar persónuupplýsingar. Ekki núna, sagði ég við sjálfa mig og ætla út úr þessari síðu en það var ekki auðvelt. Margsinnis var ég spurð hvort ég vildi ekki sækja um og loks lét ég til leiðast og sótti um. Og örin vísaði áfram, áfram. Woundering Þá kemur upp síða þar sem segir að þetta kosti eitthvað smávegis 50-200 dali.(ég hafði val um hvað ég vildi borga), en upphæðina átti að leggja inn á Visa kortið mitt til staðfestingar. Í gamla daga gekk þetta Græna kort á tíu-tuttugu þúsund dali og ef þú áttir peningana til, gastu fengið The Green Card. Þetta er ekkert verð, hugsaði ég. En ég sagði nei takk, og vildi bara út úr þessu skjali. Ekki komst ég út úr skjalinu og nú kom tilboð um að þeir myndu borga fyrir mig ferðina til Ameríku. Ég kaus að afþakka boðið en þeir ríg héldu í mig, ég komst ekki út úr þessari heimasíðu til að halda áfram með það sem ég var upphaflega að gera. Og horfði undrunaraugum á skjalið. Errm Þarna var mynd af Þinghúsinu í Washington á hausnum og leit ágætlega út fyrir auðtrúa manneskju og kannski var þetta satt, það er ekki allt „Spam“, í þessum heimi er það? Ég hafði líka heyrt af þessu innflytjenda Lottói fyrir löngu síðan.Þegar hingað var komið vildi ég ekkert annað en loka síðunni en allt kom fyrir ekki þeir marg endurtóku spurninguna hvort ég vildi ekki Græna kortið og alltaf sagði ég nei og hugsaði, þvílíkur dónaskapur og tímasóun og slökkti loks á tölvunni. Angry Í morgun klukkan 09:30, 13. desember var svo hringt í mig frá bækistöðvunum. Maðurinn í símanum sagðist vera frá Green Card Lottóinu, að ég hefði aðeins átt eitt atriði eftir við útfyllinguna í umsókninni. „Þér stendur til boða að búa og vinna í Ameríku, viltu það virkilega ekki“, sagði maðurinn undrandi. Ég varð hálf úrill og hissa á þessu símtali og hugsaði, hvers vegna öll þessi læti að fá mig til Ameríku núna. O, my God, ætli þetta séu mannaveiðar, ætli ég hafi verið of lengi og farið meira en þrjár vikur fram yfir einhvern tímann, ég mundi það ekki og varð hálf skelkuð. Það eru aðeins nokkrir dagar síðan íslensk kona var niðurlægð og svívirt hrottalega og látin dúsa hlekkjuð og matarlaus, flutt í rúðulausum fangabíl í fangelsi án útskýringa í fjórtán klukkutíma, eftir að hún lenti á JFK flugvelli, NY. Nei takk! Mig langar ekki í þvílíkt niðurbrot og mannfyrirlitningu. Ég lenti samt ekki í neinum leiðindum þegar ég flaug til Boston 2005. Maðurinn heldur áfram í símanum og segir nú: „Are you okey“? Já, já, það er allt í lagi með mig en mig langar ekki til Bandaríkjanna, gefið kortið einhverjum öðrum sem þarf virkilega á því að halda. Vertu blessaður. Tounge 

Eftir á að hyggja: Ég spurði ekki til nafns eða hvaðan hann væri að hringja. Það var mikill mannskapur og hávaðaskvaldur í kringum manninn, mér datt í hug andrúmið í Immigration í New York. Þar eyddi ég mörgum klukkustundum, vikum, mánuðum í biðröðum eftir viðtali við einhvern erindreka útlendingaeftirlitsins fyrir þremur áratugum. Mér tókst aldrei að fá Græna kortið, en mér tókst að fá atvinnuleyfi fyrir Hljómana í þrjá mánuði 1969, sem þeir nýttu aðeins í þrjár vikur. En það er svo önnur saga. LoL


Safn hættir!

Ég hef ekkert átt gott með að atast í þessum myndum, sem ég er að bæta á forsíðuna. Ég held bara áfram því haustið sagði mér sögur og þess vegna verð ég að skipuleggja árstíðirnar og hafa smá reglu á hlutunum. Errm

Skrapp á loka myndlistarsýningu í Safni á föstudaginn. Sýning Kristjáns Guðmundssonar, var glæsileg á þrem hæðum í húsinu, sem hættir starfsemi sinni eftir þessa sýningu. Hættir, eftir þessi tímabundnu fimm ár, sem Pétur Arason og Reykjavíkurborg gerðu samkomulagið um Safn sem er einstakt og í farabroddi nútímalista í Reykjavík. Ég hef alltaf litið á Safn, sem Einkasafn Safn Péturs Arasonar, og auðvitað hefur hann auðgað mannlífið með fjölbreyttum myndlistarsýningum, erlendra sem innlendra núlifandi listamanna og færi ég þeim hjónum Rögnu Róbertsdóttur og Pétri Arasyni mína bestu þakkir fyrir þeirra framlag til menningarinnar.

Listamenn hafa tínt tölunni undanfarið og má þar nefna góðan dreng Birgir Andrésson, sem var einmitt að sýna ásamt Rögnu Róberts þegar hann lést.

Birgi fannst ég horuð í sumar, svo hann bauð mér til veislu ásamt vinkonu minni á 101 Restaurant, en þangað hafði ég aldrei komið. Ljúfur engill Birgir, blessuð sé minning hans. 

Það var margt um manninn í Safni, Forsetinn Herra Ólafur Ragnar lét sjá sig, fólk var kvikmyndað og allt hvaðeina í gangi. Ég verð þó að segja að lokum að mér geðjast ekki að því að Söfn hætti, enda var andrúmsloftið einskonar minningarathöfn og enginn sem ég talaði við sáttur við að leggja það niður.Shocking

 

 


Fyrsta færslan

Það sagði mér vitur maður, að það væri stórhættulegt að sitja of lengi í 'lazy boy' með tölvuna á lærunum. Það gætu myndast sveppir undan hitanum og þá væri maður sjálfur komin með tölvuvírus.

Ég á ekki 'lazy boy', en hef gefið mér tíma, setið og lesið einhver ósköp á netinu undanfarna daga, mér til gagns og skemmtunar, með tölvuna á borðinu og er hálf undrandi yfir því, að ég skuli ekki vera komin með rassæri. 

Annars keypti ég 12 lítra af málningu í dag og verð víst að hreyfa mig ef ég ætla að nota málninguna. Hér dugar sko enginn 'lazy boy'.

Heart


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband