Hafið mig afsakaða...en sendið mér ljós !

Ef veggirnir gætu talað, þá mundu þeir segja að hún hafi verið æpandi úr sviðakvölum og friðleysi. Engu líkara en ormur væri skríðandi innan undir holdinu og nagandi sig út um allt lærið, uppá lendar og niður í hnésbætur, skiljandi eftir sár-aum svæði með blöðrum fylltum af vökva.

Þannig engdist hún í fimm daga, ''googlandi'' um heima og geyma til að finna þennan viðbjóð ef hann væri þá til. Vinstra lærið var orðið bólgið og önnur rasskinnin líka svo ómögulegt var að sitja eða liggja. Ef þetta er baktería þá er hún læknanleg með sýklalyfi, en ef þetta er vírus þá er það önnur meðferð. - Skíthrædd við bakteríusmit á spítölum, dreif hún sig loksins á bráðamóttökuna til að fá úr þessu skorið.

Niðurstaðan var ekki heimakoma einsog hún var þó að vona, heldur ristill sem er veira. Hlaupabóluveiran hefur vaknað upp á ný eftir rúm fimmtíu ár, sagði læknirinn. Hún deyr nefnilega ekki og ef ónæmiskerfið er eitthvað farið að veikjast þá grípur hún tækifærið og nær sér í nýtt líf og leggur sig svo aftur þegar hún er orðin södd. - Það væri óskandi að þetta yrði veirunnar eilíðarsvefn, hugsaði hún og kastaði sér á vegg, einsog bloggvinkona hennar gerir alltaf þegar hún er búin að fá alveg upp í kok.

Í dag eru liðnir fimmtán dagar síðan óværan gerði vart við sig. Veirulyfjakúrinn búinn, blöðrurnar sprungnar og matarlistin að koma. Þá er bara að bíða rólegur þangað til allt er búið, orðið að dufti og hrunið af. -  Þakklát fyrir lífið og að vera uppi á þessari öld - veirufræðingar og lækning! 

 

Það er margt framundan og gott að þessi kafli er brátt að baki.

Góða heilsu Smile

Heart kveðja, eva

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Góðan bata, og gangi þér vel að svæfa veiruna að eilífu. - Ég hef aldrei heyrt um svona áður, allt er nú til. -

Ég vissi að ég gæti fengið mislingana og kíghóstann aftur þar sem ég var svo ung þegar ég fékk þessa sjúkdóma fyrst. - En að hlaupabólan gæti verið  þarna innifalin, það hafði ég ekki hugmynd um fyrr en  nú. -

Fékkstu ekki hita með þessu líka?- Úff þetta er alveg hrikalegt.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 18.8.2008 kl. 01:18

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já, ég segi eins og leikkonan góða, er aldeilis hissa!

En vonandi ertu þá að verða laus við þennan fjára og átt svo bara eftirleiðis að vera hress, banna þér annað!

En af hverju að hafa þig afsakaða núna og hvað er svona spennandi framundan?

Magnús Geir Guðmundsson, 18.8.2008 kl. 02:00

3 Smámynd: Bergur Thorberg

Elsku Eva mín. Það á ekki að þér að ganga. Þetta er hræðilega kvalafullur sjúkdómur sem getur lagst á ýmsa hluta líkamans (andlit,kvið os.frv). Stundum ganga útbrotin næstum hringinn. Faðir minn fékk þetta er hann bjó í Svíþjóð og átti hann lengi í þessu. Sjálfur fékk ég hann í andlitið en sem betur fer náðist að stoppa hann strax. Þetta er kallað beltros á sænsku og eitthvað voðalegt nafn á honum á norsku. Þú kemst yfir þetta en það er sárt á meðan á því stendur. Umfram allt farðu vel með þig og góðan bata. Þinn vinur Thorberg.

Bergur Thorberg, 18.8.2008 kl. 02:39

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þekki þetta, djöf...ristillinn. Ættgengur andskoti. Fékk hann í augun þegar ég var um tvítugt, var nærri búin að missa sjónina vegna þess að þeir (læknadruslurnar)  höfðu ekki hugmynd um hvað væri að mér. Síðan færðist hann niður andlitið. Sem betur fer hefur þetta lagast með aldrinum en blossar upp við kvef og stress. Nú er hann staðbundinn við nef og munn ef hann lætur sjá sig. Dóttir okkar fékk hann um sig miðja þegar hún var þriggja ára en sem betur fer hefur hann legið niðri síðan. Man eftir að pabbi fékk sjokk og hentist með barnið upp á spítala, það var sagt í gamla daga að þú myndir deyja ef hann næði saman undir brjóstum.

Elsku Eva mín farðu vel með þig.  Svo er þetta svo bráðsmitandi, ég gekk með hanska í mörg ár ef ég fór í strætó eða bíó.  Ekki það að ég sé sjúkdómahrædd heldur það þarf svo lítið til ef maður er með þennan andsota í blóðinu.  Ég kannast líka við verkina ekkert smá sársaukafullt. 

Elsku farðu vel með þig, ekkert sund, og kuldi er heldur ekki góður.  Knús og kossar héðan frá Stjörnusteini. 

Ía Jóhannsdóttir, 18.8.2008 kl. 07:55

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er skelfileg lýsing hjá ykkur öllum hérna.

En þrátt fyrir það þá er ég afskaplega glöð að heyra að þér er að batna.

Sterkar batakveðjur til þín elsku Eva.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.8.2008 kl. 09:06

6 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Lilja mín: ég var lengi að velta mér uppúr hvort ég ætti að blogga um þessi veikindi mín. Ég hafði aldrei fengið svona áður og það var ekki fyrr en ég fór að googla að mig fór að gruna Ristil.

Hvernig voru foreinkennin? Í mínu tilfelli fékk ég tak í nárann og mér fannst einsog taugar væru að koma sér betur fyrir. Skrítin tilfinning en sönn og þá strax hefði ég átt að fara uppá spítala. Það er best að greina veiruna áður en hún sprettur út og taka þá í taumana. Ha?! ég var upp í sumarbústað með systrum mínum og tók ekki eftir ummerkjunum innanlæris fyrr en daginn sem við fórum í bæinn. Og þannig þraukaði ég í von um bata í fimm daga.

Kannski er ég gengin í barndóm.. tvisvar verður gamall maður barn...kannski á ég eftir að fá kíghóstann og mislingana en þú segir nokkuð og ég er fegin núna að ég bloggaði um óværuna. Alltaf getur maður lært. Nú fer ég að undirbúa mig fyrir foreinkenni allra barnasjúkdóma svo hægt verði að grípa snemma í taumana. Ég fékk svo mikinn hita að ég gat ekki tekið hann. kveðja

Magnús minn: Ég held í þá von að mér batni fljótlega. Veiran skellti mér þó fyrir framan handknattleikinn, það var gaman. Kannski er hún ekki alvond. Mér er illa við að gaspra um hvað framtíðin býr í skauti sér en eitt get ég sagt þér, það stendur ekki til að ég horfi í gaupnir mér, heldur láti hendur standa fram úr ermum. Hafðu það yndislegt, kveðja

Elsku Bergur minn: Þakka þér fyrir innlitið og fræðsluna. Þú skilur mig, þetta er staðbundið og sárt og heitir á íslensku og latínu. 

RISTILL (HERPES ZOSTER)

Það er einmitt það sem ég er að segja að allir geta fengið veiruna og hún þarf ekki að vera ættgeng eða smitandi nema sár í sár,- blóð í blóð blöndun. Guði sé lof að  þú hefur alveg sloppið við örin, annars ætla ég að skoða þig nánar fljótlega. Skoða, sé þig fyrir mér: skemmtilegan, fjallmyndarlegan, sjarmerandi, talent og vinurinn minn, mér finnst svo vænt um þig. Satt segirðu, það er alveg komið nóg í bili.

'' Það er alltaf verið að reyna á þig elsku Eva mín'', segir Mumma mín og klappar mér á vangann. Ég lofa að fara vel með mig og fara í gegnum nálaraugað einsog vel syndur syndaselur. kveðja

Ía mín: Takk fyrir kveðjuna. Hvað er að heyra, í augun! djöf. er hann nasty, já, hann er sko nasty. Mér finnst áhugavert að tveir af fimm bloggvinum mínum hér, þekkja sjúkdóminn af eigin reynslu og þið lifðuð af, því jú fólk dó úr þessu áður fyrr. Mamma Mummu minnar dó úr Ristli, hún fékk hann einsog snöru um hálsinn. Mikið má ég prísa mig sæla að hún nartaði í þann líkamshluta sem er ekki svo oft sýnilegur, nema jú auðvitað í sundi og sólbaði. Ég get ekki hugsað það til enda ef ég má ekki fara í sund, kannski aldrei?! Það gengur ekki. Ég hef lengi ekki þolað kulda og núna hefur veiran skemmt fleiri taugaenda, ég er alveg dofin í lærinu en bjartsýn um að ég endurheimti öll lífsins gæði sem ég leyfði mér, einsog sund. OMG! kveðja

Jenný mín: Lífið er ekki alltaf einsog við viljum hafa það, það veist þú, skemmtilega kona. Heldur vil ég vita grimman sannleikann og horfast í augu við aðstæður og læra meira um æðruleysið ef eitthvað er, en stinga hausnum í sandinn. Ég nenni samt ekki að velta mér eða öðrum uppúr sjúkdómum.

Takk fyrir þínar góðu batakveðjur, þær eru styrkur!!! kveðja 

Eva Benjamínsdóttir, 18.8.2008 kl. 14:56

7 Smámynd: Heidi Strand

Ég hef aldrei heyrt um þetta áður og þori ekki að lesa athugasemdirnar.

Ég óska þér góðan bata Eva mín.

Heidi Strand, 19.8.2008 kl. 21:46

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þér líður þá bara vel eftir atvikum?!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.8.2008 kl. 21:50

9 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Heidi mín: Þakka batakveðjuna og ég ráðlegg þér að lesa ekki athugasemdirnar, þær eru ekki fyrir viðkvæma.

Eva Benjamínsdóttir, 20.8.2008 kl. 00:34

10 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Heimir,  jú takk, bara öll að hressast, þakka þér fyrir innlitið.

Eva Benjamínsdóttir, 20.8.2008 kl. 00:38

11 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku frænka mín ertu búin að vera með ristilsfjanda, ekki er hann nú það besta sem maður fær, en vonandi nærðu þér sem fyrst.
Sendi þér orku og ljósa kveðjur.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2008 kl. 21:25

12 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 21.8.2008 kl. 01:46

13 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Elsku Milla frænka: Takk fyrir ljósið og gott ef ég finn ekki orkuna frá Húsavík. Mér finnst einsog þú þekkir þessa óværu sjálf, getur það verið?

Annars er ég búin að hreyfa mig út bæði í gær og í dag veðrið var svo gott.  Þessu hlýtur að fara að ljúka og þá er ég ekki lengi að ná mér upp aftur ef ég þekki mig rétt. Mér leiðist svo pólitíkin að ég er farin að horfa á handbolta.

Vona að þér gangi vel með þig og sért frísk. kveðjur, eva frænka

Eva Benjamínsdóttir, 21.8.2008 kl. 01:49

14 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Brynja: Takk fyrir kveðjuna og hafðu það gott.

Eva Benjamínsdóttir, 21.8.2008 kl. 01:52

15 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég lenti einu sinni í þessum fjanda fyrir margt löngu, man bara að það var eigi svo þægilegt, og var ég þá með 4 börn, lítil.
Farðu vel með þig Eva mín.
Þín frænka Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.8.2008 kl. 11:18

16 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Eigi átti ég von á því að þægilegt þætti, elsku Milla frænka mín. Ég er bara forvitin að vita hvort óværan hafi nokkurntíman endurtekið sig eftir annað skiptið? Ég er betri dag frá degi, þetta er allt að koma svona hægt og bítandi. kveðja

Eva Benjamínsdóttir, 21.8.2008 kl. 15:12

17 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

æææ ósköp er að heyra. gott að allt er að lagast. ég hef aldrei heyrt um þetta.

kærleiksljós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 21.8.2008 kl. 16:21

18 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Steina mín: Ég þakka þér fyrir innlitið og þitt kærleiksríka ljós sem fyllir nú brjóst mitt og mér líður miklu betur. Ég er byrjuð að undirbúa lúpínuna. Veðrið var svo gott í gær og fyrradag að ég naut þess að vera úti á holti og safna fræhúsum sem ég er búin að breiða úr hér á litla stofugólfinu mínu og nú eiga þau að þorna vel í nokkra daga. Ég heyri í fræhúsunum opnast hvert af öðru og sé að fræin skjótast bókstaflega út einsog popkorn. Gaman að þessu. Væri til í að fá heimilisfangið þitt sent á evabenz@hotmail.com svo ekkert klikki nú. Gangi þér vel

Kærleiksljós til þín

kveðja, eva

Eva Benjamínsdóttir, 22.8.2008 kl. 00:13

19 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef aldrei heyrt um þetta fyrirbæri áður.  En maður er alltaf að læra meira og meira í landafræði. 

Jens Guð, 23.8.2008 kl. 01:17

20 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Jens minn, takk fyrir innlitið. Mér finnst þessi sjúkdómur stórfurðulegur og kom í hug að kannski væri ég ein útnefnd í kvölina og stödd í frumskógum Afríku en ekki hér upp á Íslandi. Ristillinn er nokkuð algengur eftir því sem ég kemst næst og fer misjafnlega með fólk. Ég trúi varla að þrjár vikur séu liðnar síðan hann réðist á mig en nú er gott að tíminn líður fljótt og það bólar bara á bata, sýnist mér.

Hafðu það gott kveðja. eva

Eva Benjamínsdóttir, 23.8.2008 kl. 12:39

21 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Dóra: Það væri nú annað hvort, dóttir Millu frænku . Gott að þú unir þér vel á Laugum og ert að hugsa um sál, líkama og hlusta á Tínu babe Turner, hún er flottust. Þakka þér fyrir góðar bata kveðjur til mín, mér finnst vænt um að fá svona. Hafðu það áfram yndislegt, kveðja eva

Eva Benjamínsdóttir, 23.8.2008 kl. 23:23

22 Smámynd: Heiða  Þórðar

Ég hélt þú værir að skrifa örsögu þetta var svo snilldarlega vel framsett.

Góðan bata mín kæra

Heiða Þórðar, 25.8.2008 kl. 23:18

23 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Heiða mín, takk fyrir mig, r-o-ð-n, þín orð. Já, ætli maður fari ekki að gera einhverja alvöru úr þessu, framtíðin er rétt að byrja. París er draumaborgin, fer bara strax eftir pistilinn eða ristilinn. - Þakka batakveðjur ljósið mitt, haltu áfram að skrifa.

kveðja eva

Eva Benjamínsdóttir, 26.8.2008 kl. 11:46

24 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Elsku frænka.

Þetta er ábyggilega eitthvað sem hrjáir okkur í ættinni,þó ekki sé þetta ættgengt, því bæði pabbi og ég fengum að finna fyrir þessu: Hann fékk ristil í höfuðið (auga og innra eyra ) og lenti bráðveikur á spítala. Hann missti jafnvægisskynið og hefði getað misst sjónina á v-auganu. Ég fékk þennan ófögnuð á h-eyra, bak við það og niður á hnakka. Þvílíkan höfuðverk hef ég ekki upplifað hvorki fyrr né síðar. Var 2 vikur frá vinnu og með verki í hálft ár!

Svo, ég vona að þú hafir fengið eitthvað við þessu, því þetta er skelfilega vont!

Sendi þér ósk um fljótan bata og litlar þrautir.

Knús úr Hveró:)x

Linda Samsonar Gísladóttir, 26.8.2008 kl. 19:48

25 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Linda mín: Ekki vissi ég að Gísli bróðir hafi veikst af ristli, hvað þá heldur þú elskan mín, ég hef trúlega verið búsett í Boston þá. Þetta er einn sá svæsnasti sjúkdómur sem hefur hent mig og get ég rétt ímyndað mér kvalirnar í höfðinu og hræðsluna sem taugaendarnir í toppstykkinu hafa sent frá sér í ofanálag. Ég held að maður verði að hafa fengið veikina til að skilja tilfinninguna. Vonandi sleppa sem flestir en þó er ótrúlegt að uppgötva útbreiðsluna þegar maður fer að spyrjast fyrir. - Seinast í dag sagði vinkona mín, að hún hefði fengið ristil um tvítugt og vildi ekki rifja það upp. Ekki ræða það.

Læknirinn skrifaði uppá 25 töflur af Zovir 200mg, fimm töflur á sólarhring. Hann var ekki viss um hvort þær myndu duga úr því ég kom til hans eftir útbrot. Hann sagði að ég væri nagli, ætli það hafi ekki verið ástæðan fyrir því að ég var ekki lögð inn. Kannski var ég búin með spítala kvótann. Ekki veit ég neitt um það en óskaplega leiðist mér að vera ein og veik. Heilbrigð og ein er vel þolanlegt.  

Sárin eru ennþá að gróa, allt í góðu áttina og aðeins ein verkjatafla á dag. - Get vel við unað og veggirnir eru hættir að senda öskurekkó í gangráðinn.

Hafðu það yndislegt Linda mín og þakka þér fyrir góðar bata kveðjur. Gangi þér vel í lífinu. Þess óskar þín frænka með kveðjum í Hveró.

Eva Benjamínsdóttir, 27.8.2008 kl. 17:28

26 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Dóra: Ég hef uppá þér þegar ég kemst að Laugum, það verður þó einhver bið á því, en takk fyrir mig og hafðu það gott kveðja

Eva Benjamínsdóttir, 27.8.2008 kl. 17:33

27 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Eva mín ef þú veist það ekki þá er hún Dóra dóttir mín, og dætur hennar englarnir mínir, svo er þú kemur norður hittir þú okkur allar.
Knús til þín ljúfust.
Milla frænka.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.8.2008 kl. 13:22

28 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Elsku Milla frænka mín, jú ég var búin að átta mig á að Dóra væri dóttir þín. Þið eruð alveg yndislegar og englarnir þínir, ömmubörnin . Mikið væri gaman að hitta ykkur einhverntíman fyrir norðan. Ég hef haft mjög mikið að gera undanfarið, því ég hef tapað smá tíma í veikindunum, sem ég verð að vinna upp. Ég fékk netblaðið Naust...æ nú man ég ekki hvað það heitir) frá þér, takk fyrir það. Það er ekki margt ókeypis í dag, ég vona að þeim norð-austfirðingum gangi vel með ritið.

Það eru heilmiklar framkvæmdir í litla garðinum mínum núna. Hellulögnin er byrjuð. Þetta verður allt komið í lag á næsta ári. - Hafðu það létt og yndislegt. kveðja

Eva Benjamínsdóttir, 28.8.2008 kl. 21:04

29 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku Eva mín þú ert ávallt velkomin og hér er ýmislegt að sjá og heyra,
við erum nú einu sinni í demants-hringnum.
Kveðjur

Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.8.2008 kl. 21:18

30 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Elsku Milla mín, demants-hringnum, ég fylgist ekki með...hélt að hann væri bara á baugfingri

Eva Benjamínsdóttir, 29.8.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband