Illahraun og Baðsvellir

 Þrautarganga I
 Eins og tilkynnt var í Morgunblaðinu í fyrri viku, var efnt til gönguferðar með leiðsögn Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar á annan í páskum. Þetta rak systir mín augun í og bauð mér í göngutúr, sem ég þáði.

Við vorum komnar á tilsettum tíma að Bláa Lóninu en þaðan átti að leggja upp. Uppúr klukkan 13:00 lagði rúmlega áttatíu manna gönguhópur af stað í mikið ferðalag í frekar slæmu skyggni. Gengið var um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól meðfram Skipstíg, sem er forn þjóðleið. Haldið var austur með suðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli þar sem kíkt var á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga.   Blaa lonid i fjarska copy

Þegar hingað var komið sögu var ég búin að detta einu sinni. Það var ekki nokkur leið að líta upp úr hellu eða apalhrauninu, þá var voðinn vís. Ég var að reyna að taka myndir en í þessari ferð tókst það ekki betur en svo að ég datt. Stoppin voru fá og stutt og seinasti maður fékk ekkert stopp. Mér fannst ég vera í þjálfun fyrir hersveit. Leiðin var sem sagt löng, ströng, mörg einstigi og illfær á köflum.Við áttum enn eftir klukkutíma, áður en gengið var yfir að svæði Hitaveitu Suðurnesja hinu litskrúðuga lónsvæði að lækningalindinni.  Blaa lonid vedur fram IV copy

Dauðþreyttar settumst við systur inn í bílinn, fjórum tímum síðar og fengum okkur samlokur. Það var afrek að komast loksins í Bláa Lónið, eftir um tíu km göngutúr.

Sannkölluð þrautarganga að baki og ég er búin að taka út harðsperrurnar sl.fjóra daga. Lífið er samt dásamlegt og það eitt að vita að ég komst þessa ófæru, að mestu leiti óstudd, gefur mér byr undir báða vængi.
Blaa lonid vedur um allt I

 Maður er alltaf að safna minningum í sarpinn og eitthvað kemur út úr öllu. Það er mín reynsla. Mig hefur t.d. dreymt mjög sérstaka drauma síðan ég fór í þessa gönguferð. En ég held ég bíði með að rjúka í göngutúr með systur minni sem er í fjallaformi, svona fyrsta ganginn. Whistling

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Það er aldeils hvað þú ert dugleg að rölta um landið.

Jens Guð, 30.3.2008 kl. 01:35

2 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Núna veistu Jens hvar ég er, þegar ég er ekki heima hjá mér. Ég hef bætt mig heilmikið í þoli sl. tvo mán., en þetta var 'too much'. Bara gaman eftirá.

Eva Benjamínsdóttir, 30.3.2008 kl. 01:42

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta kalla ég bara þrekvirki elsku frænka mín, þú verður komin upp um fjöll og hæðir í sumar, frábært.
Fallegar myndir Eva mín.
                                          Kærar kveðjur Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.3.2008 kl. 09:04

4 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Flottar myndir. Ég ætti að prófa þetta, að ganga um landið. Annars er ég oftast á einhverju ráfi um vegalaus hraun í myndunum mínum.

Kristbergur O Pétursson, 30.3.2008 kl. 09:34

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vá hvað þú ert dugleg Eva.  Ég á ekki orð, þú ert að kafna úr orku.  Áttu eitthvað aflögu?

Knús

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.3.2008 kl. 11:04

6 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Takk Milla mín, ég er eiginlega sammmála þér með þrekvirkið, því ég tuldraði, fari þetta bölvað príl til andskotans þegar ég datt, en maður stendur bara upp aftur og er ánægður þegar markinu er náð.

Kristbergur: Það er búið að stika allt þarna og merkja með tölustöfum á stikurnar, þannig ef maður fer út af leið og tínist er gott að muna seinasta staðsetningarnúmer svona fyrir björgunarsveitina. Þetta er sannkölluð tilbreyting.

Jenný mín: ég verð að hafa heilmikið fyrir að drífa mig upp og út en þegar þangað er komið er einsog verið sé að kynna mann fyrir nýju útlandi og best að gera sér sem minnstar hugmyndir um þá heima fyrirfram. - Já, já ég á fullt af orku aflögu, ég sparaði hana í svo mörg sjúkdómsár. Viltu smá hessingu?

Eva Benjamínsdóttir, 30.3.2008 kl. 13:16

7 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Bara hið besta mál, fyrst púlið í hrauninu, svo paradísin í lóninu!

Ættir bara að taka bloggdrottninguna Jenný með í einn túr, hún hefði gott af því!

Magnús Geir Guðmundsson, 30.3.2008 kl. 21:36

8 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Satt segirðu Magnús, láta eitthvað gott af sér leiða og viðra bloggdrottninguna, alveg er ég til í það, hún veit hvar mig er að finna.

Eva Benjamínsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:59

9 Smámynd: Heidi Strand

Flott hjá þér Eva að klára dæmið! Svo gengur enn betur næst.
Kannski er betra að ganga með jafningja. Taktu mig með næst.

Heidi Strand, 31.3.2008 kl. 20:23

10 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Takk Heidi mín, ég er rétt að byrja en er núna voða fegin að systir mín skyldi hafa drifið mig með sér. Ég fer örugglega í einhverja göngu út fyrir bæinn um næstu helgi, laug, sun, Heiðmörk eða eitthvað. Eru fleiri með? Eigum við að kíla á plan? Til er ég en ekki neina 10 km. Svona 3-5 km það er alveg nóg með útsýni.

Eva Benjamínsdóttir, 31.3.2008 kl. 21:15

11 Smámynd: Heidi Strand

Smá göngu með útsýni, 1 til 2 km. til að byrja með Getum við skráð okkur hjá þér?

Heidi Strand, 1.4.2008 kl. 22:18

12 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Já, skráið ykkur hér, strax,  það borgar sig að hafa eitthvurt plan . Hann spáir góðu gönguveðri um helgina. Let´s go!

Það er soldið villt að keyra upp að Litlu Kaffistofunni, hittast þar kl 11 á laugardagsmorgun og ganga til fjalla norðan megin. Flott ísilagt allavega. Það er ekki mikil vegalengd. Hvað segið þið um þetta plan?

Eva Benjamínsdóttir, 1.4.2008 kl. 23:47

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þetta líst mér vel á frómu konur, stofna gönguklúbb!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.4.2008 kl. 00:33

14 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Vildi bara að ég gæti slegist í hópinn.  Kveðja inn í daginn til þín göngugarpur

Ía Jóhannsdóttir, 2.4.2008 kl. 07:13

15 Smámynd: Heidi Strand

Skráning í göngu á sunnudag 6 apríl ??????
Staður og tími???????

Heidi Strand, 2.4.2008 kl. 12:56

16 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Heyrðu mig Heidi, leist þér ekkert á að hittast við Litlu kaffistofuna upp á heiði? Sunnudagur má það vera kl 11-12 mín vegna. 5. er betri tala til að hefja flugið. 6. er svona heimavið. Annars veit ég ekki hvernig tuglstaðan er best að athuga það.

Ætli aðventístar gangi á laugardögum

Eva Benjamínsdóttir, 2.4.2008 kl. 17:33

17 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Ía, mikið værir þú velkomin og ert hvenær sem þú getur. Það er svo gott að viðra sig hérna í fjallaloftinu. Hvað skildi nú koma út úr þessu? hugsa ég. Taka tillit til annara, búa til prógramm, kaupa göngukort, smyrja brauðsneið, muna eftir vatni og dökku súkkulaði, rúsínum og umfram allt koma mér á staðinn og gleyma ekki að ganga.

Einu sinni árið 2000 lenti ég í staðföstum gönguhópi kvenna. Karlar og börn voru velkomin ef foreldrar tæku ábyrgð á króunum. Þetta var mikil tilhlökkun og ákveðið var eftir ótal fundi að ganga á fullu tungli mánaðarlega út árið. Við byrjuðum í janúar en það var aldrei farið aftur eftir það...sko fullt tungl var ekki alltaf á sama degi og planið flosnaði strax upp. Þess vegna nefndi ég tunglstöðuna hér fyrir ofan.

Ég vona að ég geti áfram staðið með sjálfri mér, ef þið ætlið eitthvað að klikka á þessu. Núna er ég að líma á tening nöfn á kennileitum, sem ég ætla að kasta upp ef ég verð strand. 

Eva Benjamínsdóttir, 2.4.2008 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband