13.12.2007 | 22:35
Green Card Lottery
Ég var að leita upplýsinga á netinu um hvernig ég gæti fengið lagið Misty eftir Erroll Garner, birt inn í sögu sem ég hef verið skrifa. Ég var stödd á heimasíðu Artist Direct+ þegar blikkandi skjal frá Green Card Lotto birtist á skjánum. Þar stendur að ég sé vinningshafi, að mér sé frjálst að búa og vinna í Ameríku, að umsóknin sé fyrir framan mig og ég þurfi bara að fylla út nokkrar persónuupplýsingar. Ekki núna, sagði ég við sjálfa mig og ætla út úr þessari síðu en það var ekki auðvelt. Margsinnis var ég spurð hvort ég vildi ekki sækja um og loks lét ég til leiðast og sótti um. Og örin vísaði áfram, áfram. Þá kemur upp síða þar sem segir að þetta kosti eitthvað smávegis 50-200 dali.(ég hafði val um hvað ég vildi borga), en upphæðina átti að leggja inn á Visa kortið mitt til staðfestingar. Í gamla daga gekk þetta Græna kort á tíu-tuttugu þúsund dali og ef þú áttir peningana til, gastu fengið The Green Card. Þetta er ekkert verð, hugsaði ég. En ég sagði nei takk, og vildi bara út úr þessu skjali. Ekki komst ég út úr skjalinu og nú kom tilboð um að þeir myndu borga fyrir mig ferðina til Ameríku. Ég kaus að afþakka boðið en þeir ríg héldu í mig, ég komst ekki út úr þessari heimasíðu til að halda áfram með það sem ég var upphaflega að gera. Og horfði undrunaraugum á skjalið. Þarna var mynd af Þinghúsinu í Washington á hausnum og leit ágætlega út fyrir auðtrúa manneskju og kannski var þetta satt, það er ekki allt Spam, í þessum heimi er það? Ég hafði líka heyrt af þessu innflytjenda Lottói fyrir löngu síðan.Þegar hingað var komið vildi ég ekkert annað en loka síðunni en allt kom fyrir ekki þeir marg endurtóku spurninguna hvort ég vildi ekki Græna kortið og alltaf sagði ég nei og hugsaði, þvílíkur dónaskapur og tímasóun og slökkti loks á tölvunni. Í morgun klukkan 09:30, 13. desember var svo hringt í mig frá bækistöðvunum. Maðurinn í símanum sagðist vera frá Green Card Lottóinu, að ég hefði aðeins átt eitt atriði eftir við útfyllinguna í umsókninni. Þér stendur til boða að búa og vinna í Ameríku, viltu það virkilega ekki, sagði maðurinn undrandi. Ég varð hálf úrill og hissa á þessu símtali og hugsaði, hvers vegna öll þessi læti að fá mig til Ameríku núna. O, my God, ætli þetta séu mannaveiðar, ætli ég hafi verið of lengi og farið meira en þrjár vikur fram yfir einhvern tímann, ég mundi það ekki og varð hálf skelkuð. Það eru aðeins nokkrir dagar síðan íslensk kona var niðurlægð og svívirt hrottalega og látin dúsa hlekkjuð og matarlaus, flutt í rúðulausum fangabíl í fangelsi án útskýringa í fjórtán klukkutíma, eftir að hún lenti á JFK flugvelli, NY. Nei takk! Mig langar ekki í þvílíkt niðurbrot og mannfyrirlitningu. Ég lenti samt ekki í neinum leiðindum þegar ég flaug til Boston 2005. Maðurinn heldur áfram í símanum og segir nú: Are you okey? Já, já, það er allt í lagi með mig en mig langar ekki til Bandaríkjanna, gefið kortið einhverjum öðrum sem þarf virkilega á því að halda. Vertu blessaður.
Eftir á að hyggja: Ég spurði ekki til nafns eða hvaðan hann væri að hringja. Það var mikill mannskapur og hávaðaskvaldur í kringum manninn, mér datt í hug andrúmið í Immigration í New York. Þar eyddi ég mörgum klukkustundum, vikum, mánuðum í biðröðum eftir viðtali við einhvern erindreka útlendingaeftirlitsins fyrir þremur áratugum. Mér tókst aldrei að fá Græna kortið, en mér tókst að fá atvinnuleyfi fyrir Hljómana í þrjá mánuði 1969, sem þeir nýttu aðeins í þrjár vikur. En það er svo önnur saga.
Athugasemdir
Bandarísk stjórnvöld eru stöðugt að vara fólk við svindlfyrirtækjum sem umræddu. Græna kortið er ókeypis. En það er aragrúi af svindlfyrirtækjum sem nota Græna kortið sem gulrót til að ná síðan af fórnarlömbunum bankaupplýsingum.
Jens Guð, 13.12.2007 kl. 22:46
Þakka þér fyrir Jens, ekki vissi ég að Græna kortið væri ókeypis og mikið er ég fegin að þeir náðu ekki að lokka mig þessir andsk. svindlarar.
Eva Benjamínsdóttir, 14.12.2007 kl. 01:11
Eva mín, hef eina gullnar reglur á netinu:
Hunsa algjörlega tilboð sem líta út fyrir að vera of góð til að vera sönn, því þau eru það!
Eiga í engu við aðila sem ég veit ekki hver er og alls ekki gefa nein merki um áhuga eða forvitni.
Aldrei gefa upp persónulegar upplýsingar til ókunnra, hvorki símanúmer né annað.
Ef maður fylgir þessu, getur maður bara átt ansi góða daga fyrir framan tölvuna sína!
....góðar kveðjur til þín.
Viðar Eggertsson, 14.12.2007 kl. 07:16
Viðar minn, þú ert engill! Takk fyrir að benda mér á hvað ég get verið áhugasöm og forvitin, óþolinmóð og hvatvís, það er ég og þú veist það. Verð að passa mig betur, lofa því.
Mikið var annars gott að ISG tók svona fljótt á máli Erlu. Erla stóð sig mjög vel í Kastljósinu.
Þú áttir svo sannarlega þátt í þrýstingnum, bravó!
Ljós til þín!
Eva Benjamínsdóttir, 14.12.2007 kl. 17:19
1. Á youtubesíðunni er reitur hægra megin við vídeóið, þar sem stendur "EMBED" Þar undir er kóði, sem þú smellir á og þá litast hann blár. Cópíeraðu þann kóða.
2. Opnaðu stjórnborðið þitt og byrjaðu nýja færslu. Þú getur skrifað hana fyrst og sett videóið inn eða öfugt. Í hægra horninu á færsluglugganum þínum stendur "Nota Html-ham" Smelltu á það.
3. Smelltu svo inn í rammann, þar sem þú villt að videóið birtist í samhengi við textann og þú sérð bendilinn blikka þar.
4. Peistaðu Embed kóðanum þar inn. Þá sérð þú runu af kóða birtast, sem virðist bara ruglingslegur texti.
5. Farðu þá aftur upp í hægra horn glugganns, þar sem áður stóð Nota Html-ham. Þar stendur nú "Nota Grafískan -ham" smelltu á það tákn og þá breytist rugltextinn í færslunni í gulann ramma, sem gefur til kynna staðsetningu myndbandsins.
Þú getur þá annað hvort klárað að skrifa færsluna eða vistað strax ef þú ert þegar búinn. Bíddu í ca. mínútu og farðu þá inn á bloggið þitt og þú munt sjá að þú ert með videó á blogginu þínu eins og fyrir einskæra galdra. :-)
Linka gerir þú með að kómíera netslóðina, sem þú ætlar að linka á. Svo litar þú orðið, sem þú ætlar að nota, sem link og smellir á keðjuhlekkina fyrir miðjum færsluglugga efst. Þá færðu upp glugga. Þar peistarðu netslóðinni í efri línuna og ýtir á "Insert".
Jón Steinar Ragnarsson, 15.12.2007 kl. 01:04
Þetta eru semsagt leiðbeiningar um að setja inn linka og videó.
Til að setja inn videó af google eða öðrum síðum, þá þarf aðeins öðruvísi nálgun og þú bara spyrð, þegar að því kemur. Youtube er algengasta uppsprettan af styttri myndböndum (5-10 mín) en á Google eru stærri myndbönd og heimildamyndir í fullri lengd.
Gangi þér vel.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.12.2007 kl. 01:07
Jón Steinar Ragnarson, komdu heill og sæll vestfirðingurinn góði og talentinn mikli, sem kemur nú einsog engill til mín og kennir mér allt sem ég hef þráð að læra undanfarið....ljós til þín! Mikið er ég þakklát!!!
Ég skoðaði nokkur frábær video hjá þér og skemmti mér og klökknaði á víxl, takk, en ég á eftir að skoða miklu meira og hlakka til að læra og lesa meira.
Mér finnst útlit síðunnar þinnar það jólalegasta sem ég hef séð, hvítir stafir á rauðum fleti...alveg einsog húfan þín.
Kær kveðja...jólasveinninn minn! eva
Eva Benjamínsdóttir, 15.12.2007 kl. 03:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.